Færsluflokkur: Bloggar

Ledger hype

Áður en ég held lengra er rétt að taka fram að ég hef ekki enn séð Batman, á hins vegar miða í IMAX salinn Ann Arbor í næstu viku, hlakka ekkert smá til! 

Það er svolítið sorglegt hvað dauði Heath Ledger er að hafa mikil áhrif á umsagnir um nýju Batman myndina. Enn verra er þegar fólk virðist vera að draga úr leik Ledgers bara af því að hann er látinn og er að halda því fram að fólki hefði verið alveg sama um Ledger sem Joker ef hann væri enn á lífi. Ég man hins vegar eftir greinum í Empire tímaritinu og viðtali við innanbúðarfólk af tökustað myndarinnar sem hélt varla vatni yfir leik Ledger á meðan hann var enn á lífi.

Hins vegar er forvitnilegt að svo virðist sem Joker hlutverkið sé nokkurs konar segull á tilnefningar, að minnsta kosti ef slúðrið í Hollywood er rétt þar sem fólk heldur að Ledger muni verða tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverkið. Svipað gerðist þegar Jack Nicholson lék Jokerinn, hann var tilnefndur bæði til Golden Globe og BAFTA fyrir það hlutverk.

Einhverntíman sagði Christpher Nolan að nýja Batman serían ætti ekki að verða eins og síðasta sería, sem einblíndi svo mikið á glæpónana að Batman týndist, en mér sýnist sem það sé að verða raunin með þessa seríu líka.


mbl.is Kvikmynd um Leðurblökumanninn setur aðsóknarmet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þversögn

Í fréttatíma RÚV talaði Geir um varnarsamstarf á friðartímum... er það ekki þversögn??
mbl.is Geir: Góður og árangursríkur fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfir fréttamenn Morgunblaðsins

Hvernig væri nú að fréttamenn Morgunblaðsins/24 Stunda, eða að minnsta kosti mbl.is, færu að vinna vinnuna sína og gera eitthvað annað en bara þýða orðrétt upp úr erlendum fréttamiðlum? Þessi rannsókn segir nákvæmlega ekkert um það að lyfjagjöf sé gagnslaus við ofvirkni, ekki neitt! Þú þarft ekki einu sinni að vera meira en sæmilega læs á ensku til að sjá að íslenska fyrirsögnin er röng. Fréttamiðstöð háskólans í Buffalo sendi frá sér fréttatilkynningu með eftirfarandi fyrirsögn: "Medication Combined with Behavior Therapy Works Best for ADHD Children, Study Finds" (skáletrun mín).

Meginniðurstöður eru þær að ef notuð er atferlismeðferð með lyfjameðferð má betur stilla af lyfjaskammta barna með ADHD. Ekki sérlega flókið. Það eru stórmerkilegar fréttir og frábært fyrir börn sem þjást af ADHD og fjölskyldur þeirra ef hægt er að minnka lyfjaskammta.

Rannsóknina má finna á eftirfarandi slóð : http://www.buffalo.edu/news/fast-execute.cgi/article-page.html?article=72800009 


mbl.is Segja lyfjagjöf við ofvirkni gagnslausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetamerkið

Skemmtilegt að sjá þetta, mitt merki var númer 909 og ég var í fyrsta hópnum sem Ólafur Ragnar veitti merkið. Þetta var fyrir rúmum 10 árum síðan, mikið rosalega er ég orðinn gamall!
mbl.is Skátar taka á móti forsetamerkinu á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ég blogga um bjartsýnisstöðvar heilans?

Rakst á frétt á mbl.is sem segir frá því að vísindamenn við New York háskóla hafi fundið bjarsýnisstöðvar mannsheilans. Það var víst notuð "háþróuð heilmyndatækni" til að mynda heila þátttakenda í rannsókninni þegar þau ímynduðu sér góða og slæma hluti. Góðar og slæmar "ímyndir" virtust kveikja á mismunandi stöðvum í heilanum. Þablega það...

Sé ekki alveg hvernig þetta tengist bjartsýni. Fólkið er að ímynda sér eitthvað gott en þetta segir manni ekkert um hvernig þau muni takast á við vandamál, hvort þau séu bölsýnisfólk eða gætu unnið til bjartsýnisverðlauna Brösters.  Ef fyrri vísindafréttamennska á mbl.is segir mér eitthvað þá mun það vera það að
1) fréttamaðurinn hefur væntanlega ekki lesið rannsóknargreinina, bara lesið UM greinina. Þanig kannski varð einhver misskilningur í þýðingu á texta.
2) ég mun hins vegar ekki eiga í neinum vandræðum með að finna greinina sjálfur, það er jú ekki nema einn háskóli í öllu New York fylki og væntanlega bara einn rannsakandi sem er í heilarannsóknum. Það skýrir hvers vegna ekki er minnst á hvar rannsóknin var gerð eða hver gerði hana. 

Ég opnaði fyrstu 6 fréttirnar í tækni og vísinda flokknum á mbl.is og þetta var sú eina sem ekki var hægt að blogga um. Getur verið að fréttamennirnir séu orðnir þreyttir á því að við séum að gagnrýna léleg vinnubrögð? Eða gleymdist bara að bjóða uppá að tengja blogg við þessa frétt? 


Um sannanir í vísindum

Ég hef aðeins verið að blanda mér í umræðuna um óhefðbundnar lækningaaðferðir, vísindi og aðferðafræði hér á netinu eftir að Pétur Tyrfingsson gagnrýndi höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun (HS) hér fyrir skömmu. Til að hafa þetta á hreinu, ég tek heils hugar undir með Pétri og finnst að meira eigi að fylgjast með skottulæknum og kuklurum hvort sem þeir starfa innan eða utan heilbrigðiskerfisins.

En, ég vildi ræða ögn um sannanir í vísindum. Margir þeir sem hafa viljað verja HS og aðrar alternatívar lækningar fara oft út í að ræða um vísindalegar sannanir og að vísindin séu ekki alvitur. Til að byrja með skulum við athuga hvað átt er við með hugtakinu „vísindalega sannað". Fyrst þarf að taka tillit til þess hvað átt er við með hugtakinu „vísindi". Er verið að ræða lífvísindi? Hugvísindi? Heilbrigðisvísindi? Sannanir í heimspeki eru öðruvísi en í félagsfræði eftir því sem ég kemst næst. Í framhaldi af því má svo ræða hvað er almennt átt við með hugtakinu vísindi? Síðast þegar ég athugaði var enn verið að rífast um það hvað var eiginlega átt við með hugtakinu vísindi. Ég ætla að ganga út frá því hér að með hugtakinu vísindi sé verið að fjalla um „kerfisbundna athugun á einhverju fyrirbæri og að við þá athugun séu notaðar aðferðir sem eru viðurkenndar af öðrum sem rannsaka téð fyrirbæri eða önnur fyrirbæri sem tengjast því". Þetta er ekki fullkomin skilgreining en ég held að hún sé nægilega víð til að hægt sé að notast við hana í þessu samhengi. 

Þá er það hugtakið „sönnun". Ef mig misminnir ekki þá var lögð á það mikil áhersla af kennurum okkar í HÍ að nota aldrei hugtakið „sönnun" þegar við ræðum rannsóknarniðurstöður. Ekkert er sannað í rannsóknum og vísindum, kenningar eru prófaðar og niðurstöður þeirra prófana gefa vísbendingu um það hvort tiltekin kenning geti verið rétt. Það virðist því vera sem inn í orðræðu vísindalegrar aðferðafræði sé innbyggð örlítil auðmýkt. Við munum aldrei sanna né afsanna nokkurn hlut, við getum einungis sagt með tölfræðilegri vissu hvort A muni gerast þegar við gerum B. Þetta má ekki misskilja sem svo að hér sé einhvers konar póst módernísk höfnun á sannleikshugtakinu, ef líkurnar á því að A gerist við birtingu B eru 0.0000000000001% þá má segja að hugtakið sé afsannað. En það er prinsíp mál að forðast slíkt orðalag í lengstu lög, ef ekki til annars en til þess að forðast það að það sem maður skrifar í dag verði haft að háði og spotti eftir 100 ár.

Hvernig tengist þetta því sem sagt hefur verið um okkur efasemdarfólkið undanfarna daga? Jú, ef það sem ég segi er rétt þá virðist vera sem svo að vísindamenn séu langt frá því að „þykjast vita allt". Það er starf okkar að rannsaka heiminn, hvernig hann virkar og hvernig við höfum áhrif á hann. Við forðumst einnig gífuryrði og ofurloforð. Það virðist hins vegar vera aðferð hinna óhefðbundnu lækninga. „Auðvitað virkar þetta! Þetta er aldagömul aðferð, fundin upp í Kína, af hverju ætti þetta ekki að virka??".

Það eina sem við vísindamenn, rannsakendur og fagfólk viljum eru gögn. Kæru alternatívu þerapistar, sýnið okkur GÖGN um að meðferðirnar ykkar virki og á ykkur verður hlustað. Berið saman aðferðir ykkar og þær sem eru nú þegar viðurkenndar. Hver er munurinn? Eru ykkar aðferðir að lækna fleiri en þær hefðbundnu lækningar sem við könnumst við? Ef svo er má, og á, að bæta ykkar meðferð inn í heilbrigðiskerfið. Ef ykkar meðferð virðist ekki bæta neinu við en stendur sig jafn vel og þær meðferðir sem nú eru til má líka bæta ykkar meðferð inn í kerfið. Verið hins vegar svo væn að gera ykkur grein fyrir því að stundum, örsjaldan, læknar líkaminn sig sjálfur og þarf til þess lítið annað en félagslegan og andlegan stuðning. Ef þið eruð virkilega svona opin upp á gátt og líberal spyrjið ykkur þá hvort það hafi kannski gerst hjá ykkar skjólstæðing? Ef líkurnar segja ykkur að svo hafi verið þá mættuð þið kannski viðurkenna að aðferðir ykkar eru ekki að virka, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem þið hélduð. 

Mig langar líka að benda því fólki sem er að agnúast út í nútíma vísindi á að fyrr á tímum, þegar alternatívu aðferðirnar voru hefðbundnar, var heilsa almennings miklu verri en nú er. Barnadauði var algengur og meðalaldur jafnvel undir 50 árum. Það sem í dag er auðlæknanlegt með okkar hrokafullu vísindum var lífshættulegt, sýkingar, kvefpestir, beinbrot og næringarskortur drápu fólk en í dag er mjög sjaldgæft að þetta drepi fólk.


Léleg vísindafréttamennska

Enn og aftur birtast í Morgunblaðinu lélegar fréttir af vísindum. Hver gerði rannsóknina? Hver var samanburðarmeðferðin? Í fréttinni segir einnig að: „Það kunni einnig að útskýra niðurstöðurnar að sjúklingarnir hafi verið jákvæðir gagnvart nálastungum, eða neikvæðir gagnvart hefðbundnum lækningum, og það geti skýrt lyfleysuáhrifin." Hvar var þetta úrtak valið? Ef gengið var á nálastunguklíník og fólk valið þaðan er nokkuð ljóst að lyfleysuáhrifin verða mjög mikil.

Morgunblaðið ætti að sjá sóma sinn í að vera með góða vísindafréttamenn eða að minnsta kosti fólk sem kann að segja frá rannsóknum og hefur smávægilega þekkingu á vísindaskrifum. Þetta er til skammar. Það virðist næstum vera eins og það sé markmið blaðsins með þessum skrifum að útmá vísindin sem hlægileg, fyndin og tilgangslaus. 


mbl.is Nálastungur bestar til að lina bakverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Jón Grétar Sigurjónsson

Höfundur

Jón Grétar Sigurjónsson
Jón Grétar Sigurjónsson
Framhaldsnemi í taugasálfræði og atferlisfræði við háskólann í Galway á Írlandi.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband