Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.9.2007 | 09:50
Um írska undrið
Ég tek undir með Ögmundi Jónassyni að það var gott að sjá að til Íslands slapp írskur fræðimaður sem ekki er í jákórnum um hvað allt sé yndislegt á Eyjunni grænu. Ég er búinn að vera hér í tvö ár í námi í Galway á vesturströnd Írlands og hef svo sannarlega orðið var við "efnahagsundrið" hér og hvernig hér hefur verið staðið að málum. Hér eru nokkur dæmi:
- Gatnakerfið hér er hreinlega ótrúlegt. Hér eru örmjóar götur sem alla daga eru troðfullar af nýjum Lexus jeppum og Jagúar sportbílum sem komast hvorki lönd né strönd í umferðarstöppunni. Strætisvagnar eru aldrei á réttum tíma þar sem þeir sitja líka fastir í umferð. Gangstéttir eiga það til að enda í miðri beygju svo gangandi vegfarendur þurfa að hætta lífi og limum með því að fara yfir götuna þar sem gangstéttin heldur áfram. Ekki það að það séu margir sem gangi, hér hafa það allir svo gott að þeir kaupa sér bara bíl á okurvöxtum. Það er greinilegt að gróða af efnahagslegri uppbyggingu hefur ekki verið varið í gatnagerð.
- Verðlag hér er með því hæsta í Evrópusambandinu. Hér kosta nauðsynjar nær tvöfalt á við það sem þær kosta í Þýskalandi ef ég tek orð félaga minna sem búa þar trúanleg. Þar sem þeir eru góðir drengir efast ég ekki um orð þeirra. Efnahagsundrið hefur því greinilega ekki haft áhrif á verðlag.
- Húsnæðisverð hér er svimandi. Fyrir hektara lands í úthverfi Galway var nýlega borgað 700.000 evrur. Nú skal tekið fram að Galway er einungis 80.000 manna borg og sýslan telur um 300.000. Að borga nær milljón evra fyrir tóman reit í úthverfi er auðvitað fáránlegt. Hvað ætli húsið komi til með að kosta?
- Leigumarkaðurinn er sannkallaður hákarlasjór. Til að örva hagvöxt hér brugðu yfirvöld í Galway (veit ekki hvort þetta var gert um allt Írland) á það ráð að bjóða leigusölum skattfrelsi af leigutekjum fyrstu árin (ég held það séu fyrstu 3 árin). Í þokkabót voru ekki settar reglur um ástand húsa sem leigt var út. Þar sem Galway er háskólabær og með mikinn fjölda erlendra og innlendra verkamanna sem starfa í verksmiðjum Hewlet Packard, Dell og fleiri alþjóðarisa er mikil eftirspurn eftir húsnæði. Hús voru því byggð með ógnarhraða en litlum gæðum, leigð út í þrjú ár og svo seld næsta leigusala sem gat fengið 3 ár af skattfrjálsum leigutekjum. Þetta dómínó hefur orðið til þess að hér eru hús vægast sagt slöpp, mygla er algeng, kuldi vegna lélegrar eða engrar einangrunar, hávaði og ónýtar leiðslur. Efnahagsundrið hjálpar ekki fólki á leigumarkaði.
- Vatnsleiðslur. Hér í Galway búum við við þann vafasama heiður að vera örugglega eina byggða bólið í vesturheimi þar sem ekki er hægt að búa við stöðugt og öruggt flæði hreins vatns. Í maí kom hér upp cryptosporidium eitrun í vatninu sem sérfræðingar töldu að hefði verið í vatninu í þó nokkurn tíma áður en það komst upp. Maður hefði haldið að eitt af ríkustu ríkjum Evrópu hefði getað lagað þetta snögglega, það tókst jú amerískri stórborg á aðeins fáum vikum. Nei, hér voru pólitíkusar að þrátta um hverjum ætti að kenna um og í águst eða september var vatnið loksins lagað. Þess má geta að nú í sumar kom upp e-coli baktería í vatnsbóli í úthverfi Dublin sem og hér í Galway. Vatnslagnirnar eru þá ekki lagaðar með gróðanum af efnahagsundrinu.
- Sjúkrahúsin hér eru gróðrarstía sýkinga. Hér er ágætis heilbrigðiskerfi, að minnsta kosti á pappírum. Þó minnist ég þess að MRSA bakterían kom hér upp árið sem ég kom hingað. Við nánari athugun kom í ljós að á fyrstu 6 mánuðum ársins 2005 höfðu yfir 300 manns látist úr MRSA bakteríunni. Samanburðartölur við Ísland eru í kringum 3 einstaklingar á sama tíma. Ekki veit ég til þess að á Íslandi missum við marga sjúklinga sökum MRSA og þegar þetta kemur upp er deildum lokað og þær hreinsaðar. Hér var annar háttur hafður á. Þar sem það var væntanlega of dýrt að loka deildum og þvo þær voru prentuð veggspjöld og fólki bent á mikilvægi handþvottar. Ekkert annað var gert. Efnahagsundrið var því ekki nýtt í að bjarga mannslífum á spítölum.
- Það má að lokum benda á að hér er efnahaginum helst haldið uppi með tveimur atvinnuvegum: hátækniiðnaði eins og tölvu og prentaraframleiðslu og framleiðslu tækja fyrir lyfjaiðnað annars vegar og hins vegar með húsnæðisbyggingum. Nú er útlit fyrir að austur Evrópulönd fari að taka til sín eitthvað af þessum hátækniiðaði þar sem þar er að finna vel menntað fólk og lægri launakröfur en hér er að finna sem og lægra verð á iðnaðarhúsnæði. Það verður þá væntanlega til þess að minnka þörfina fyrir nýtt húsnæði sem mun þá væntanlega slá á húsbyggingarþörfina. Hér tala margir hagfræðingar um að efnahagsundrið svokallaða sé byggt á brauðfótum og segja að á bak við tjöldin sé Írland í raun enn þriðja heims ríki.
Nú er ég ekki að segja að það sé með öllu ömurlegt að búa á Írlandi en það fær mann til að þakka fyrir almenningssamgöngur, spítala sem eru hreinir þrátt fyrir að þar sé þjónustan stundum hæg, gatnakerfi sem virkar að mestu, hreint vatn og lagaumhverfi sem skyldar leigusala til þess að minnsta kosti útrýma meindýrum áður en leigjendur flytja inn. Verðlag heima er einnig hátt en að minnsta kosti sé ég að það er verið að byggja ofantalda vegi, spítala og fleira með sköttunum sem halda verðinu uppi.
Orð mín má ekki misskilja á þann hátt að ég sé forhertur kommúnisti sem tali fyrir samyrkjubúum og okursköttum. Ef ég þyrfti að setja mig á bás væri ég eflaust krati af gamla skólanum, fylgjandi hóflegri sköttun og vel frjálsu efnahagskerfi. Mér finnst hins vegar rétt að í umræðunni komi fram fleiri atriði en bara að írar séu að græða peninga og hafa það frábært. Ofantalin atriði gætu varpað einhverju ljósi á af hverju þeir græða svona mikið.
Um bloggið
Jón Grétar Sigurjónsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar